Innlent

Lokuðu Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Stefán
Veginum um Súðavíkurhlíð var lokað núna klukkan 6 í morgun vegna snjóflóðahættu. Veðurstofan áætlar að mikil hætta sé á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum en þar gæti orðið mjög hvasst þegar líður á daginn, jafnvel stormur.

Gular viðvaranir eru í gildi fyrir Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra og Norðurland eystra.

Á vef Veðurstofunnar segir að um og fyrir helgina hafi verið hlýtt á norðanverðum Vestfjörðum og snjóþekjan hlýnað og blotnað víða. Síðan þá hefur kólnað og bætt á snjó „sem búast má við að geti orðið óstöðugur vegna hitastigulsummyndunar,“ eins og það er orðað. Þá hafi snjóflóð fallið aðfaranótt mánudags. Spáð er áframhaldandi snjókomu og skafrenningi á svæðinu í dag.

Taldi Vegagerðin því að réttast væri að loka veginum um Súðavíkurhlíð nú í morgunsárið.

Það mun þó draga úr úrkomu og vindi á norðvesturhorninu í kvöld og verður hægari vindur og úrkomulítið á Suðaustur- og Suðurlandi í dag. Gert er ráð fyrir 10 til 18 m/s og snjókomu á Vestfjörðum á morgun en mun hægari vindi annars staðar og verður bjart á köflum. Þó gæti sums staðar verið él við ströndina. Frostið verður á bilinu 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum.

Gular viðvaranir eru í gildi fyrir norðvesturhorniðVeðurstofan
Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Norðaustan 8-15 og snjókoma eða él á Vestfjörðum. Hægur vindur annars staðar, úrkomulítið og bjart veður. Frost 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum.

Á fimmtudag:

Norðaustan 5-13 m/s og él, einkum NV-til, en léttskýjað á SV-verðu landinu. Áfram kalt í veðri.

Á föstudag:

Norðan 8-13 og snjókoma eða él um landið norðanvert, en þurrt og bjart veður S-til. Frost 0 til 8 stig.

Á laugardag:

Vaxandi austanátt S- og V-lands, þykknar upp og fer að snjóa um kvöldið. Hægari vindur á N- og A-landi og dálítil él við ströndina. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum N-lands.

Á sunnudag:

Austanátt og slydda eða snjókoma með köflum, hiti kringum frostmark.

Á mánudag:

Austlæg átt og snjókoma við N-ströndina, annars úrkomulítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×