Fótbolti

Rúnar Már skiptir um lið í Sviss

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson. Mynd/Heimasíða St. Gallen
Rúnar Már Sigurjónsson mun klára leiktíðina hjá St. Gallen í svissnesku úrvalsdeildinni en hann skrifaði í dag undir samning við félagið sem gildir til loka leiktíðarinnar.

Rúnar Már kemur í skiptum fyrir annan leikmann, Gjelbrim Taipi, sem fer til Grashoppers á móti. Ekki er um lánssamning að ræða en möguleiki er á að samningur Rúnars verður framlengdur að leiktíðinni lokinni. Þetta kemur fram á heimasíðu St. Gallen.

Forráðamenn St. Gallen eru ánægðir með að hafa klófest Rúnar og kalla hann „baráttuglaðan víking“. Enn fremur sé afar áhugavert fyrir félagið að hann sé leikmaður sem sé að berjast um sæti í HM-leikmannahópi Íslands.

Rúnar kom til Sviss árið 2016 og var byrjunarliðsmaður hjá Grashoppers út október. Eftir það kom hann aðeins tvívegis við sögu hjá liðinu í deildinni sem varamaður en meiðsli settu einnig strik í reikninginn.

Alls skoraði Rúnar þrettán mörk fyrir Grashoppers í 51 leik fyrir félagið og lagði upp tíu þar að auki.

St. Gallen er í fjórða sæti svissnesku deildarinnar með 27 stig en Grashoppers er í því sjötta með 24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×