Innlent

Gærdagurinn sá kaldasti á árinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðalhiti í byggðum landsins var -8,2 stig í gær.
Meðalhiti í byggðum landsins var -8,2 stig í gær. Vísir/Anton
Dagurinn í gær var sá kaldasti á árinu á landinu í heild og mældist kuldinn mestur í Svartárkoti eða -29,0 stig. Þetta kemur fram á bloggsíðu veðurfræðingsins Trausta Jónssonar sem segir frostið á Svartárkoti vera það mesta sem hafi mælst á landinu frá 6. desember 2013 þegar frostið við Mývatn var -31,0 stig.



Mesta frost sem vitað er um í desember mældist í Möðrudal þann 9. árið 1917 ,samkvæmt Trausta. Þá mældist frostið -34,5 stig.

Hann segir meðalhita í byggðum landsins hafa verið -8,2 stig í gær og sé einungis vitað um 90 kaldari desemberdaga frá og með 1949. Það samsvari rúmlega einn dag á ári að meðaltali en þeir séu ekki nema sjö á þessari öld.

„Frostið í Svartárkoti í dag er það mesta sem vitað er um á landinu 29. desember og er því svokallað landsdægurlágmark. Þetta er fyrsta byggðarlágmarksmet sem sett er á árinu, en annað í röð landsdægurmeta á landinu í heild - fjöldinn talsvert undir almennum væntingum. Til samanburðar má geta þess að hámarksdægurmetin eru orðin 12 á árinu (óstaðfestur fjöldi) - fjöldi talsvert ofan væntinga,“ skrifar Trausti.

„Mikill fjöldi dægurmeta féll á einstökum stöðvum, t.d. hefur ekki mælst meira frost þann 29. desember á Bergstöðum í Skagafirði og á Sauðanesvita.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×