Innlent

Varhugavert ferðaveður á Þorláksmessu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Veðrið verður ekki álitlegt á Vestfjörðum.
Veðrið verður ekki álitlegt á Vestfjörðum. VÍSIR/STEFÁN
Á morgun, Þorláksmessu, gengur í norðaustanátt með snjókomu og skafrenningi á norðan og austanverðu landinu, fyrst á Vestfjörðum í fyrramálið en síðan norðan- og norðaustantil síðdegis á morgun. Viðbúið er að skyggni spillist nokkuð hratt, og að ferðaveður verði varhugavert, einkum annað kvöld. Gul viðvörun Veðurstofunnar verður í gildi fyrir Vestfirði alla Þorláksmessu og fram að hádegi á aðfangadag.

Gert er ráð fyrir suðvestan 8 til 15 m/s og slydduél eða él, en austlægari og snjókomu eða slyddu norðan og austantil í fyrstu. Þá mun hvessa og bæta í ofankomu NV-til í kvöld sem fyrr segir. Það gengur í norðaustan 10 til 18 m/s í nótt og á morgun, með snjókomu og skafrenningi, fyrst á Vestfjörðum en á Norður- og Austurlandi síðdegis.

Þó verður heldur hægari vindur sunnan jökla og úrkomulítið en það fer einnig að snjóa suðaustantil annað kvöld. Hiti um og yfir frostmarki fram eftir degi, en fer svo kólnandi, frost 2 til 12 stig síðdegis á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag (Þorláksmessa):

Gengur í NA 15-23 m/s með snjókomu NV- og N-lands með morgninum, fyrst á Vestfjörðum en Na-til um og eftir hádegi. Suðvestan 8-15 víðast hvar annars staðar með éljum vestantil en dregur úr vindi og ofankomu sunnan jökla þegar líður á daginn. Hiti víða í kringum frostmark en kólnar um kvöldið.

Á sunnudag (aðfangadagur jóla):

Norðaustan 5-13, hvassast NV-til. Snjókoma norðan og austantil, en él í öðrum landshlutum. Frost 0 til 8 stig, en fer kólnandi með kvöldinu.

Á mánudag (jóladagur):

Norðaustan 8-15 m/s með éljum, en úrkomulítið suðvestanlands. Frost 3 til 15 stig, kaldast í innsveitum NA-lands.

Á þriðjudag (annar í jólum), miðvikudag og fimmtudag:

Norðan og norðaustan 8-15 m/s. Él víða norðan og austantil en bjartviðri sunnan jökla. Frost 2 til 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×