Innlent

Ísland enginn griðastaður fyrir konur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kynferðisleg áreitni virðist vera fylgifiskur næturlífsins á Íslandi.
Kynferðisleg áreitni virðist vera fylgifiskur næturlífsins á Íslandi. Vísir/KTD
Alþjóðlega fréttaveitan AP beinir sjónum sínum að baráttu Íslendinga gegn kynbundnu ofbeldi í myndbandi sem veitan birti í gær.

Í myndbandinu er litið til þess að Íslendingum sé reglulega hampað sem kyndilberum jafnréttis í heiminum. Hér sé meðal annars að finna kvenkyns forsætisráðherra og jafnréttislöggjöf sem á sér fáa líka í heiminum. Engu að síður er tilkynnt um fleiri nauðganir í Reykjavík, miðað við höfðatölu, en í mörgum öðrum stórborgum Evrópu. Þannig hafi þriðjungur íslenskra kvenna á aldrinum 18 til 80 ára orðið fyrir ofbeldi af hendi karlmanns.

Í myndbandinu er litið við í kennslustund kynjafræði í Borgarholtsskóla þar sem rætt er við nemendur og kennarann Hönnu Björg Vilhjálmsdóttur. Þá er Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði, jafnframt tekin tali. Hún segir að þvert á orðsporið sé Ísland enginn griðastaður fyrir konur.

Að sama skapi er fjallað um tilraunir skemmtistaða til þess að sporna við áreitninni sem virðist vera fylgifiskur næturlífsins í miðborg Reykjavíkur. Helga Lind Mar, einn af forsprökkum Druslugöngunnar, segir að markmiðið sé ekki aðeins að minna fólk á að áreita ekki aðra heldur einnig að hvetja fólk til að greina frá áreitninni sem það verður fyrir.

Myndband fréttaveitunnar má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×