Sport

Jordan tekjuhæsti íþróttamaður allra tíma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Jordan heldur áfram að raka inn seðlum þótt skórnir séu löngu komnir á hilluna.
Michael Jordan heldur áfram að raka inn seðlum þótt skórnir séu löngu komnir á hilluna. vísir/getty
Michael Jordan er tekjuhæsti íþróttamaður allra tíma. Þetta kemur fram í úttekt viðskiptatímaritsins Forbes.

Jordan hefur þénað 1,85 milljarð Bandaríkjadala síðan hann samdi við Chicago Bulls árið 1984. Þrátt fyrir að hafa lagt skóna á hilluna fyrir 14 árum er Jordan enn með styrktarsamninga við fjölda fyrirtækja, þ.á.m. Gatorade og Nike. Hann heldur því áfram að safna seðlum.

Tiger Woods er í 2. sæti á lista Forbes en kylfingurinn hefur rakað inn 1,7 milljarði dala á ferlinum.

Kylfingarnir Arnold Palmer,sem lést í fyrra, og Jack Nicklaus raða sér í sæti þrjú og fjögur. Phil Mickelson er svo í 6. sætinu.

Ökuþórinn Michael Schumacher er í 5. sæti en hann hefur þénað einn milljarð dala. Hann er hæsti Evrópubúinn á listanum.

Golf, körfubolti og box eiga fimm fulltrúa á lista Forbes yfir 25 tekjuhæstu íþróttamenn allra tíma. Alls koma þeir úr átta íþróttagreinum. Engin kona er á listanum.

Aðeins þrír fótboltamenn eru meðal 25 tekjuhæstu íþróttamanna allra tíma; David Beckham (7.), Cristiano Ronaldo (12.) og Lionel Messi (16.).

Úttekt Forbes má lesa með því að smella hér.

Tekjuhæstu íþróttamenn allra tíma:

1. Michael Jordan - 1,85 milljarður Bandaríkjadala

2. Tiger Woods - 1,7 milljarður

3. Arnold Palmer - 1,4 milljarður

4. Jack Nicklaus - 1,2 milljarður

5. Michael Schumacher - 1 milljarður

6. Phil Mickelson - 815 milljónir

7.-8. Kobe Bryant - 800 milljónir

7.-8. David Beckham - 800 milljónir

9. Floyd Mayweather - 785 milljónir

10. Shaquille O'Neal - 735 milljónir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×