Innlent

Sindri ekki borgunarmaður málskostnaðar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Dómsalur 1 í Hæstarétti þegar málflutningur í markaðsmisnotkunarmálinu fór fram.
Dómsalur 1 í Hæstarétti þegar málflutningur í markaðsmisnotkunarmálinu fór fram. vísir/anton brink
Héraðsdómur Reykjaness hefur lækkað upphæð fjárnáms sem gert var hjá Sindra Sveinssyni, fyrrverandi starfsmanni eiginfjárfestinga Landsbankans, úr rúmum 22 milljónum króna niður í tvær milljónir króna. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í liðinni viku.

Í febrúar á síðasta ári var Sindri dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir þátt sinn í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans. Þá var honum gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Reimars Péturssonar, að upphæð rúmlega 22,6 milljónir króna. Reimari var greidd sú upphæð úr ríkissjóði sem síðan hóf að krefja Sindra um endurgreiðslu. Sindri kvaðst ekki vera borgunarmaður fyrir upphæðinni og var því farið fram á að upphæðin yrði sótt með aðför. Það fjárnám reyndist árangurslaust með öllu.

Sindri stefndi gerðarbeiðanda og krafðist þess að krafan yrði lækkuð. Hann haldi látlaust heimili með eiginkonu sinni, greiði af fasteignalánum sínum en húsið sé hins vegar séreign konu hans. Lagði hann fram kaupmála, dagsettan 27. maí 2013, þess efnis. Mál sérstaks saksóknara var hins vegar höfðað með ákæru rúmum tveimur mánuðum fyrr. Þá lagði Sindri nú fram gögn sem sýndu að á árunum 2014-15 voru meðaltekjur hans rúmar níu milljónir króna á ári.

Dómari málsins taldi sannað að Sindri væri ekki í stakk búinn til að greiða skuldina. Það tæki hann um tvo áratugi að greiða hana að fullu. Var því fallist á að lækka kröfuna niður í tvær milljónir.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×