Innlent

Snjóar víða á landinu í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Á Norður- og Norðausturlandi er víða éljagangur og sums staðar skefur.
Á Norður- og Norðausturlandi er víða éljagangur og sums staðar skefur. Vísir/auðunn
Veðurstofan spáir að það muni snjóa víða norðanlands og á Vestfjörðum í nótt. Sömuleiðis mun setja niður nokkurn snjó suðaustanlands, allt að tuttugu til þrjátíu sentimetra.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að sums staðar verði talsverður bylur og takmarkað skyggni, meðal annars frá Skaftafelli og að Jökulsárlóni frá því seint í nótt og fram eftir morgni. Reikna má með hviðum, 30 til 35 metra á sekúndu, staðbundið í Öræfum fram yfir miðjan dag, en gefin hefur verið út gul viðvörun fyrir Suðausturland.

Færð og aðstæður

Það eru hálkublettir víða á Suðurlandi, og sums staðar hálka, einkum á útvegum. Eins er víða nokkur hálka á Vesturlandi, ekki síst á fjallvegum.

Það hefur éljað á Vestfjörðum, og þar er víða strekkingsvindur og skafrenningur. Víðast hvar er ýmist hálka eða snjóþekja en þæfingsfærð er á Steingrimsfjarðarheiði og þungfært á Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði.

Á Norður- og Norðausturlandi er víða éljagangur og sums staðar skefur. Færð kann því að spillast þegar þjónustu lýkur.

Það er hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Austurlandi. Með suðausturströndinni hefur éljað og þar er nú víðast nokkur hálka eða snjóþekja,“ segir í tilkynningunni frá Vegagerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×