Golf

Stöðug spilamennska hjá Ólafíu á lokahring tímabilsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafía lék á pari vallarins í dag.
Ólafía lék á pari vallarins í dag. vísir/getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur lokið leik á CME Group Tour Championship, lokamóti tímabilsins á LPGA-mótaröðinni sem fer fram í Flórída.

Ólafía náði sér mun betur á strik en í gær og spilamennska hennar var mjög stöðug í dag. Hún lék á parinu og endaði á samtals fjórum höggum yfir pari. Hún er, þegar þetta er skrifað, í 59.-60. sæti.

Ólafía byrjaði á 10. holu, líkt og á fimmtudaginn og laugardaginn. Hún paraði fyrstu tvær holurnar en fékk svo fyrsta skollann á 12. holu.

Ólafía svaraði fyrir hann með fugli og þremur pörum áður en hún fékk annan skolla á 17. holu. Hún paraði 18. holuna og var því á einu höggi yfir pari og samtals á fimm höggum yfir pari eftir fyrri níu.

Ólafíu gekk illa á seinni níu í gær þar sem hún fékk fjóra skolla. Í dag fékk hún aðeins einn skolla en tvo fugla. Ólafía lék seinni níu holurnar á einu höggi undir pari. Eini skollinn kom á 3. holu en á síðustu sex holunum fékk hún einn fugl og fimm pör.

Hún hitti brautina í 13 af 14 skiptum á hringnum í dag, púttaði 29 sinnum á 18 holum og var 11/18 í innáhöggum.

Ólafía hefur lokið leik á sínu fyrsta tímabili á LPGA-mótaröðinni. Og hún spilaði nógu vel til að fá annað tímabil á þessari sterkustu mótaröð í heimi.

Ólafía endaði í 73. sæti peningalista LPGA-mótaraðarinnar og fær því fullan keppnisrétt á næsta ári. Markmiðið að vera í hópi 80 efstu kylfinga náðist og það er það mikilvægasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×