Bíó og sjónvarp

Ugla leikstýrir tveimur þáttum af Ófærð: „Forréttindi að fá þetta tækifæri“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ugla Hauksdóttir er núna í tökum á Siglufirði þar sem hún leikstýrir tveimur þáttum af Ófærð 2.
Ugla Hauksdóttir er núna í tökum á Siglufirði þar sem hún leikstýrir tveimur þáttum af Ófærð 2. Ugla Hauksdóttir
Leikstjórinn Ugla Hauksdóttir vakti mikla athygli þegar hún vann til verðlauna sem Besta kvenstúdínu kvikmyndagerðakonan hjá Directors Guild of America þegar hún útskrifaðist frá Columbia háskóla. Ugla lauk meistaranámi í leikstjórn og vann hún fjölda verðlauna á kvikmyndahátíð skólans fyrir leikstjórn á stuttmynd sinni How Far She Went. Ugla er núna á Siglufirði við tökur á ófærð en henni kom mikið á óvart að vera boðið þetta verkefni.

„Baltasar hefur samband við mig eftir að ég gerði útskriftarmyndina mína en ég fékk stór verðlaun fyrir þessa mynd, stærstu verðlaun sem maður getur fengið við útskrift. Baltasar og Sigurjón báðu um að fá að sjá myndina mína.“

Símtalið kom á óvart

Þegar Baltasar Kormákur leikstjóri og framleiðandi og Sigurjón Kjartansson handritshöfundur horfðu á myndina og buðu svo Uglu í kjölfarið að koma og leikstýra tveimur þáttum í þáttaröðinni Ófærð 2.

„Þetta kom mér mjög á óvart og ég var mjög þakklát fyrir að þeir skyldu hafa samband. Ég gerði ekki ráð fyrir að fá svona stórt tækifæri strax eftir nám. Ég var rosalega til í þetta strax og hlakkaði mikið til að hefja þetta samstarf.“

Ugla segir að þetta verkefni hafi verið algjörlega frábært í alla staði. Hún hefur verið búsett í New York í þrettán ár en verður núna á Íslandi fyrir þetta verkefni í einhvern tíma, allavega þangað til tökum á Ófærð líkur í mars á næsta ári.

„Ég mætti fyrr til þess að ná að fylgjast aðeins með, Baltasar var þá að leikstýra. Ég sat við hliðina á honum og fylgdist með því hvernig hann væri að gera þetta. Ég vildi líka nota tímann til þess að kynnast fólkinu sem ég er að vinna með, þar sem að ég er búin að búa lengi erlendis.“

Ugla og Baltasar við tökur á Ófærð 2.LILJA JÓNSDÓTTIR
Spennufall eftir fyrstu senuna

Ugla segir að á tökustað hafi allir verið ótrúlega faglegir og hópurinn væri eins og vel smurð vél.

„Mér fannst alveg ótrúlegt að fylgjast með því hvað þetta gengur allt hratt og vel fyrir sig. Það er alveg ómetanlegt að fá að vera með Baltasar og læra af honum og því fólki sem er hér og er búið að vinna í þessum bransa í mörg ár. Það eru forréttindi að fá þetta tækifæri.“

Ugla leikstýrði sinni fyrstu senu fyrir tveimur dögum, með þeim Ólafi Darra Ólafssyni og Ilmi Kristjánssyni sem leika lögreglufólk í þáttunum.

„Þetta var virkilega gaman. Þetta var líka smá spennufall en góð byrjun og gekk mjög vel held ég.“

Hún segir að allir hafi tekið sér mjög vel. „Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi, bæði frá öllum í RVK Studios og leikurum og tökuliðinu svo þetta hefur verið mjög jákvætt í alla staði.“

Vinnur handrit að bíómynd

„Ég er að þróa handrit að bíómynd í fullri lengd sem mér langar að gera hérna á Íslandi. Ég mun því nota tækifærið og skrifa þegar ég er ekki að leikstýra Ófærð. Það er langt og flókið ferli að gera sína fyrstu bíómynd en ég held að framtíðin sé björt.“

Ugla er að fara að skrifa undir samning hjá stórri umboðsskrifsstofu í Los Angeles en vil þó ekki gefa upp meira um það á þessum tímapunkti. Hún vonar að það muni opna á skemmtileg tækifæri í Bandaríkjunum en sér þó líka fyrir sér að dvelja og starfa sem leikstjóri á Íslandi.

„Það er svolítið óljóst eins og er, ég ætla bara að sjá hvernig þetta fer. Ég er með vinnuleyfi í Bandaríkjunum svo draumurinn er að hoppa á milli eftir verkefnum. Ég hef jafn mikinn áhuga á að starfa þar og í Evrópu.“

Hún segist vera mjög heppin að hafa fengið tækifærið til þess að leikstýra þáttum af Ófærð.

„Ég held að það sé samt mjög mikill áhugi fyrir konum í kvikmyndagerð í dag og ég held að það sé margt að breytast.“


Tengdar fréttir

Slysamorð í kjallara myndi ekki halda í tíu þætti

Baltasar Kormákur fer yfir farinn veg í viðtali við Vísi þar sem hann ræðir Adrift, Ófærð 2 og umræðuna um Ófærð 1 hér á landi, ásamt því að spjalla um væntanleg verkefni og Weinstein-málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×