Innlent

Alvarlegt ástand fyrir austan

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á meðal þess sem hefur skemmst í vatnavöxtunum er göngubrú yfir Hólmsá á Mýrum.
Á meðal þess sem hefur skemmst í vatnavöxtunum er göngubrú yfir Hólmsá á Mýrum. jón kjartansson
Friðrik Jónas Friðriksson, formaður svæðisstjórnar björgunarsveitanna á Suðausturlandi, segir að ekki þurfi að fara í grafgötur með það að ástandið fyrir austan sé alvarlegt vegna gríðarlegra vatnavaxta og flóða sem fylgt hafa mikilli úrkomu þar í gær og í nótt.

Ekki stytti upp í nótt á svæðinu og enn rignir. Þá er þjóðvegur 1 á vegakafla milli Hoffellsár og Flateyjar á Mýrum enn lokaður. Landhelgisgæslan mun í dag fljúga yfir svæðið og kanna ástand vega og brúa. Þá funda viðbragðsaðilar klukkan níu.

„Hér er bara rok og rigning og svipuð staða og gærkvöldi. Það er jákvæð veðurspá fyrir daginn í dag en svo á að byrja að rigna aftur á morgun,“ segir Friðrik í samtali við Vísi sem staddur er á Höfn.



Sjá einnig:
Áfram mun rigna á Austurland

Alls komu um fimmtíu manns í fjöldarhjálparstöðvar í gærkvöldi sem opnaðar voru vegna veðursins, annars vegar í Hofgarði og hins í Mánagarði. Friðrik segir að allt hafi þetta verið erlendir ferðamenn sem fundin var gisting annars staðar svo enginn dvaldi í hjálparstöðvunum í dag.

Þá eru fimm bæir innlyksa á milli Árbæjar og Hóls á Mýrum en Friðrik segir að ekki væsi um fólk þar.

„Það eru ferðamenn á einum bænum sem verður reynt að losa um í dag,“ segir hann.

Aðspurður segir hann lítið vitað um tjón á vegum og brúm þar sem enginn hafi komist inn á svæðið. Þess vegna sé þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út svo hægt sé að fljúga yfir og kanna og meta aðstæður.

„Það þarf ekkert að fara í grafgötur með að þetta er alvarlegt ástand.“

Þar sem þjóðvegur 1 er lokaður var vegurinn rofinn á þremur stöðum svo hleypa mætti vatni niður fyrir veg sem brotið hafði sér leið í gegnum varnargarða Hólmsár og fundið sér leið fimm kílómetra austur með þjóðveginum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×