Innlent

Bjarni fundar með forsetanum á morgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tekur á móti Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á Bessastöðum á morgun.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tekur á móti Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á Bessastöðum á morgun. vísir/ernir
Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson mun eiga fund með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á Bessastöðum á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu. 

Til fundarins er boðað í ljósi þess að stjórn Bjartrar framtíðar og þingflokkur Viðreisnar, samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, hafa lýst yfir að þessir tveir flokkar styðji ekki lengur það stjórnar- samstarf. 

Bjarni greindi frá því sjálfur á blaðamannafundi í Valhöll í dag að hann vildi boða til kosninga, helst í nóvember. Hann hefði rætt við formenn flestra flokka í dag og orðið fyrir vonbrigðum með viðbrögð þeirra þar sem þeir virðast fastir í sama farinu og fyrir stjórnarmyndunarviðræður í fyrra. Fyrir vikið væri ekkert annað í stöðunni en að leita til almennings og boða til kosninga.

Óhætt er að segja að Bjarni hafi verið gagnrýninn á störf Bjartrar framtíðar í gærkvöldi þar sem flokkurinn, sem telur fjóra þingmenn, sleit stjórnarsamstarfinu í gærkvöldi.

Fundur Bjarna og Guðna verður á Bessastöðum kl. 11:00 í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×