Innlent

Festið trampólínin: Tvær haustlægðir í vikunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það mun blása um landsmenn í vikunni.
Það mun blása um landsmenn í vikunni. Vísir/Stefán
Veðurstofan ráðleggur Íslendingum að tryggja að trampólín og aðrir lausamunir utanhúss séu vel skorðaðir af því á leiðinni séu tvær haustlægðir. Sú fyrri kemur á morgun og verður með mestu lætin suðaustanlands. Sú síðari bankar svo uppá á laugardaginn og gæti orðið öllu aflmeiri.

„Það er því vissara fyrir okkur öll að huga að nærumhverfinu og koma í veg fyrir óþarfa tjón. Tryggjum að trampólínið takist ekki á loft og komum garðhúsgögnunum í var svo við getum notið þeirra næsta sumar,“ eins og veðurfræðingur orðar það.

Annars verður bjart veður á köflum á norðausturhorninu, en rigning suðaustanlands í fyrstu. Annars verða skúrir og hiti á bilinu 9 til 17 stig, hlýjast Norðaustanlands.

Þá verður vaxandi austlæg átt í nótt, víða 10 til 18 m/s í fyrramálið og rigning á köflum, en allt að 25 m/s suðaustanlands og talsverð rigning. Snýst svo í suðaustan 10 til 18 m/s annað kvöld og styttir upp á Norðurlandi. Nánar á veðurvef Vísis.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Austlæg átt, víða 10-18 m/s og rigning, en talsverð rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast suðvestanlands.

Á fimmtudag og föstudag:

Suðaustan og austan kaldi eða strekkingur og rigning á köflum, en bjartviðri að mestu norðan- og norðaustanlands. Hiti 8 til 14 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á laugardag:

Útlit fyrir hvassa austlæga átt með rigningu um allt land, einkum þó suðaustan- og austanlands. Hiti 8 til 15 stig.

Á sunnudag og mánudag:

Suðlæg átt og skúrir, en léttskýjað og þurrt á norðausturhorninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×