Stjórnvöld Norður-Kóreu hafa sætt mikilli gagnrýni í kjölfar nýjustu kjarnavopnatilraunar sinnar. Þá skilja sumir Twitter-viðbrögð Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem hótun um hernaðaraðgerðir og svipaða sögu var að segja af ummælum James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna fyrr í kvöld.
![](https://www.visir.is/i/60BDEA07619D9E368F9B28FD54CA4EFAC79E6BA1081CB5076EAE7905E81EE116_390x0.jpg)
Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og öryggis- og varnarmálafræðingur, var gestur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hún hefur látið sig málefni Norður-Kóreu allmiklu varða en aðspurð segir hún ólíklegt að átök brjótist út á Kóreuskaga.
„Það má aldrei útiloka að það sé hætta á átökum, þar sem það hefur aldrei verið undirritað friðarsamkomulag. Það er í raun bara vopnahlé frá því að Kóreustríðið var en ég held að það sé frekar ólíklegt að það gerist að svo stöddu,“ sagði Vera.
„Ég held að þetta séu frekar Norður-Kóreu-menn að sýna að þeim sé alvara með kjarnorkuvopnaáætlun sinni og að vinnan haldi áfram og að þeir séu alltaf að ná lengra og lengra.“
Eldflaugar til Guam raunveruleg ógn
Vera er jafnframt á því að Norður-Kórea gæti verið að beina skeytum sínum á einhvern tiltekinn stað á jörðinni. Hún segir aðspurð að eldflaugar, sem nái til bandaríska sjálfsumdæmishéraðsins Guam, séu raunveruleg ógn.
„Já, þeir eru búnir að vera að þróa eldflaugar, semsagt langdrægar, og þær eru með drægni að Japan eins og sást nýlega. Þeir gætu þess vegna alveg náð til Guam, það er alveg raunveruleg ógn. Hvort það næði meginlandi Bandaríkjanna tel ég ólíklegt eins og er en hvort að þeir komi kjarnaoddinum sjálfum á eldflaug, það er annað mál. Ég er ekki viss um að þeir séu alveg komnir þangað.“
![](https://www.visir.is/i/0BF24D0514BCF96689E5B2A9BE067E3B0C06030DCFFFB85EBB0DAC24682BFAD8_713x0.jpg)
„Núna er það Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem mun koma saman og ræða hertari viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu. Það er í rauninni eina aðgerðin sem Kínverjar geta fallist á að þessu sinni.“
Funda um aðgerðir á morgun
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun koma saman á neyðarfundi á morgun og funda um vopnatilraunir Norður-Kóreu. Yfirvöld í Kína, Rússlandi og Bretlandi eru enn fremur á meðal þeirra sem fordæmt hafa tilraunina.
Norður-Kóreumenn sprengdu í nótt vetnissprengju í tilraunaskyni en sprengjan var sú öflugasta sem einræðisríkið hefur sprengt til þessa. Sprengingunni fylgdi jarðskjálfti sem mældist 6,3 að stærð og fannst hann víða í norðausturhluta Kína. Þá segja yfirvöld í Norður-Kóreu að hægt verði að festa sprengjuna á langdræga eldflaug.
Viðtalið við Veru og umfjöllun Stöðvar 2 um nýjustu kjarnorkutilraun Norður-Kóreu má horfa á í spilaranum efst í fréttinni.