Innlent

Eldur í hvalaskoðunarbáti sem áður steytti á skeri

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Útgerð Hauks á einnig bátana Knörrinn og Fjald.
Útgerð Hauks á einnig bátana Knörrinn og Fjald. vísir/jónas emilsson
Öryggismönnun á skipum sem annast farþegaflutninga hérlendis er undir lágmarki og þörf á að grípa til aðgerða til að bregðast við stöðunni. Af þeim sökum hefur Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) lagt til við Samgöngustofu að forsendur þess efnis verði endurskoðaðar.

Tilefni tillögunnar er atvik sem átti sér stað í ágúst í fyrra um borð í hvalaskoðunarbátnum Hauki, sem gerður er út af Norðursiglingu á Húsavík. Þrjátíu og þrír farþegar voru um borð en aðeins tveir skipverjar. Afgasrör bátsins fór í sundur og við það fylltist vélarrúm bátsins af reyk. Björgunarsveitir voru kallaðar út en báturinn náði að sigla klakklaust aftur til hafnar.

Skipstjóri bátsins var jafnframt vélstjóri hans og kemur fram í skýrslu RNSA um atvikið að hann telur mönnun vera ábótavant. RNSA tekur undir þau sjónarmið og beinir tilmælum til Samgöngustofu að tryggja mönnun á farþegaskipum.

Annarri skýrslu um atvik á sama báti var einnig skilað í síðasta mánuði. Þá hafi hann tekið niðri á skeri við Lundey. Högg kom á skipið en ekki varð vart við leka. Orsök slyssins var óvarleg sigling skipstjóra og beinir nefndin þeim tilmælum til útgerðarinnar að skipstjórum verði gert skylt að sigla eftir fyrir fram merktum og öruggum siglingaleiðum til að tryggja öryggi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×