Allt að þriðjungur Harris-sýslu, þar sem 4,5 milljónir manna búa í Houston og úthverfum borgarinnar, er enn á floti eftir rigningarnar, að sögn Washington Post. Minnst 22 eru sagðir hafa farist í hamförunum.
Flóðvatnið er sagt ná yfir um það bil 1.150 ferkílómetra svæði í Houston. Til samanburðar er höfuðborgarsvæði Reykjavíkur rúmir 1.062 ferkílómetrar.
Útgöngubanninu er ætlað að koma í veg fyrir þjófnaði og gripdeildir. Það verður í gildi frá miðnætti til kl. 5 að staðartíma í ótiltekinn tíma. Sjálfboðaliðar, neyðarstarfsmenn og þeir sem þurfa að komast til og frá vinnu eru undanþegnir banninu, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Yfirvöld í Houston hafa greint frá því að gripdeildir og vopnuð rán hafi átt sér stað í kjölfar flóðanna en einnig hafa einstaklingar villt á sér heimildir og þóst verið lögreglumenn.
Þúsundir borgarbúa hafa neyðst til að flýja heimili sín sem standa auð og óvarin í millitíðinni.
Radar update: Light to moderate rain continues to fall over the far eastern counties. Conditions will steadily improve today #Harvey #houwx pic.twitter.com/PzDvi7KAJh
— NWS Houston (@NWSHouston) August 30, 2017
Veðurstofa Bandaríkjanna staðfesti jafnframt í gær að úrkomumet hefði verið slegið í hitabeltisstorminum. Þannig mældist 132 sentímetra úrkoma í veðurstöð í Cedar Bayou frá því á föstudag. Harvey er ennfremur mesta vatnsveður sem hefur gengið á meginland Bandaríkjanna.