Saga Joshua Lee Witt fór sem eldur í sinu um samfélagsmiðla fyrr í þessum mánuði og tóku sumir hægrisinnaðir fjölmiðlar eins og Fox News hana upp. Var hún nefnd sem dæmi um áráshneigðan vinstrisinna sem réðist á hvítt fólk.
Facebook-færslu Witt þar sem hann hélt því fram að á hann hefði verið ráðist vegna þess að hann leit út eins og nýnasisti hefur verið dreift tugþúsund sinnum. Hárgreiðsla Witt átti að hafa verið það sem gaf árásarmanninum tilefni til að ætla að hann væri nýnasisti.

Lýsti Witt árásarmanninum við lögreglu og sagði hann hafa flúið hlaupandi eftir árásina.
Lögreglu grunaði hins vegar strax að maðkur væri í mysunni, að því er kemur fram í frétt The Guardian. Engin önnur vitni voru að árásinni og ekkert kom heldur fram á öryggismyndavélum. Þá sást Witt á upptöku úr öryggismyndavél í verslun festa kaup á hníf.

Witt var handtekinn í kjölfarið. Hann á yfir höfði sér sekt og jafnvel árs fangelsi verði hann fundinn sekur um að gefa lögreglu falska skýrslu.
Svo virðist sem að frétt Fox News um árásina sem aldrei var hafi verið tekin niður af vefsíðu miðilisins. Fyrirsögn fréttar Fox hafði verið „Andfasisti stingur saklausan mann vegna „nýnasistahárgreiðslu““.