Fótbolti

Maðurinn sem lét FIFA borga fyrir kattaríbúðina sína í Trump-turninum í New York er dáinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chuck Blazer.
Chuck Blazer. Vísir/Samsett/Getty
Chuck Blazer, einn mesti svikahrappur fótboltasögunnar, er látinn 72 ára gamall. Hann hafði verið að berjast við krabbamein. BBC segir frá.

Blazer hafði á sínum tíma komist með hendurnar í gríðarlegar fjárhæðir hjá FIFA og hafði lifað afar ljúfu lífi í boði Alþjóðafótboltasambandsins þar til upp komst um alla spillinguna.

Það var hinsvegar vandræði með að borga skattinn sinn sem urðu honum á endanum að falli. Eftir að upp komst um skattsvikin þá ákvað Blazer að hjálpa FBI í að afla upplýsinga sem hjálpuðu til að ákæra fjórtán aðra háttsetta menn innan FIFA fyrir spillingu. Úr varð FIFA hneykslismálið mikla.

Blazer var árið 2015 dæmdur í ævilangt bann frá fótbolta en hann játaði þá að hafa þegið mútur, stundið peningaþvætti og svindlað á skattinum.

Blazer var fyrrum yfirmaður knattspyrnusambands Norður- og Mið-Ameríku og hafði verið framkvæmdastjórn FIFA frá 1997 til 2013. Hann var því háttsettur innan Alþjóðafótboltasambandsins í langan tíma og nýtti sér það til að komast yfir mikla peninga.

Hann fékk alls 20,6 milljónir dollara, rúma tvo milljarða íslenskra króna, frá FIFA á árunum 1996 til 2011 og þar á meðal borgaði Alþjóðaknattspyrnusambandsins leigu fyrir tvær íbúðir í Trump-turninum í New York en önnur þeirra var bara fyrir kettina hans. 


Tengdar fréttir

Mótframbjóðandi Sepp Blatter flæktur í mútumál

FIFA hefur sett af stað rannsókn vegna ásakanna á hendur tveimur stjórnarmanna FIFA sem eiga að hafa brotið siðareglur FIFA á fundi hjá karabíska fótboltasambandinu. Fundurinn var haldinn í tengslum við komandi forsetakosningar FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×