Innlent

Jón Trausti Lúthersson farinn úr landi

Ritstjórn skrifar
Jón Trausti Lúthersson var í flugi til Spánar í gærkvöldi.
Jón Trausti Lúthersson var í flugi til Spánar í gærkvöldi. Vísir/Ritstjórn
Jón Trausti Lúthersson, einn sakborninganna í manndrápsmálinu í Mosfellsdal, flaug til Alicante á Spáni seint í gærkvöldi. Grímur Grímsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti ferðalag Jóns Trausta en sagði lögreglu ekki hafa séð ástæðu til að fara fram á farbann.

„Við vitum af þessu en fundum ekki ástæðu til aðgerða,“ segir Grímur í samtali við Vísi í dag. „Það var ekki farið fram á farbann.“

Jón Trausti var látinn laus úr gæsluvarðhaldi í vikunni. Lögregla veit ekki til þess að aðrir tengdir málinu séu farnir úr landi. Grímur segir rannsókn málsins enn fremur miða mjög vel og segir hana klárast á næstunni.

„Það er bara verið að snurfusa þetta næstu daga og svo verður málið sent til héraðssaksóknara.“

Allir þeir sex sem handteknir voru vegna málsins hafa enn stöðu sakbornings.

Hæstiréttur staðfesti á dögunum úrskurð héraðsdóms varðandi Svein Gest Tryggvason, sem er einn sex grunuðu um aðild að málinu, um að hann sæti fjögurra vikna gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna.

Alls eru sex manns grunaðir í málinu en fjórum var sleppt úr gæsluvarðhaldi fyrir tæpum tveimur vikum. Arnar Jónsson Aspar lést eftir að hafa orðið fyrir hrottalegri líkamsárás við heimili sitt að Æsustöðum í Mosfellsdal þann 7. júní síðastliðinn. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×