Gert er ráð fyrir því að yfirheyrslur yfir sexmenningunum sem grunaðir eru um að tengjast láti Arnars Jónssonar Aspar hefjist aftur í dag.
Sex voru handtekin eftir líkamsárás á Æsustöðum í Mosfellssveit á miðvikudag í liðinni viku. Yfirheyrslur stóðu fram á nótt það kvöld en lítið hefur verið um þær síðan þá. Einn var yfirheyrður í fyrradag og enginn í gær.
Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar, segir að þó ekki alveg sé búið að ákveða hvort yfirheyrt verði í dag þá reikni hann þó með því. Þá liggi ekki fyrir á þessari stundu hver verða yfirheyrð.
Sjá einnig: Reyndu að samræma framburð
Allir fimm karlarnir í málinu, Sveinn Gestur, Jón Trausti Lúthersson, Marcin Wieslaw Nabakowski, Rafal Marek Nabakowski og Rúnar Örn Bergmann, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 23. júní. Ásta Hrönn Guðmundsdóttir hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 16. júní en dómari hefur talið tengsl hennar við atburðarásina vera minni en karlanna og því er gæsluvarðhald hennar styttra.
Grímur segir enn fremur að ekki liggi fyrir hvert dánarmein Arnars var en niðurstöður krufningar liggja ekki fyrir. Það verður líklega á næstu dögum.
