Fjórum sakborningum af sex, sem handteknir voru grunaðir um aðild að manndrápinu í Mosfellsdal í síðustu viku, var sleppt úr haldi lögreglu skömmu eftir hádegi í dag. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Sex voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa orðið Arnari Jónssyni Aspar að bana í Mosfellsdal í síðustu viku, fimm karlar og ein kona. Karlmennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 23. júní en konan til 16. júní. Þremur karlmannanna og konunni var sleppt í dag eftir yfirheyrslur.
Staðfest er að Jón Trausti Lúthersson og Sveinn Gestur Tryggvason eru enn í haldi lögreglu vegna málsins. Þá voru bræðurnar Rafal og Marcin Nabakowski á meðal þeirra er sleppt var úr haldi í dag.
Í samtali við Vísi segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn málsins, að málið sé upplýst að því marki að ekki sé lengur ástæða til að halda sakborningunum fjórum, sem sleppt var í dag, í gæsluvarðhaldi.
Grímur segir augljóst að aðild fjórmenninganna hafi verið minni en hinna tveggja. Þá gat Grímur ekki staðfest hvort óskað yrði eftir áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir sakborningunum sem enn eru í haldi lögreglu.
