Innlent

Manndráp í Mosfellsdal: Upp undir tíu vitni verið yfirheyrð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður var vegna málsins í gærkvöldi.
Mikill viðbúnaður var vegna málsins í gærkvöldi. vísir/eyþór
Upp undir tíu vitni hafa verið yfirheyrð vegna manndrápsins í Mosfellsdal í gærkvöldi. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.

Sex manns voru handteknir í gær en maður á fertugsaldri var úrskurðaður látinn á Landspítalanum í Fossvogi eftir að hafa orðið fyrir hrottalegri líkamsárás við Æsustaði í Mosfellsdal.

Grímur segir að yfirheyrslur yfir hinum sex handteknu hafi farið fram í nótt en í morgun hafa vitni verið yfirheyrð. Þá er verið að safna saman öllum gögnum í málinu vegna hugsanlegrar gæsluvarðhaldskröfu yfir einhverjum hinna grunuðu en ákvörðun um gæsluvarðhald verður tekin síðar í dag að sögn Gríms.

Þeim sem urðu vitni að árásinni hefur ekki verið boðin áfallahjálp en lögregla er nú að skoða hvort það verði gert og hvernig verði staðið að því samkvæmt upplýsingum frá Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirlögregluþjóni.

Prestur var kallaður til í gærkvöldi vegna andláts mannsins og ræddi hann við aðstandendur sem voru á vettvangi árásarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×