Engar yfirheyrslur fóru fram yfir sex einstaklingum sem sitja nú í gæsluvarðhaldi, grunaðir um manndráp í Mosfellsdal á miðvikudagskvöld, í gærkvöldi eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurði sína varðandi varðhald.
Hin grunuðu voru flutt í fangelsið á Hólmsheiði þar sem þau sitja í einangrun en um er að ræða fimm karla og eina konu. Karlarnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 23. júní en konan til 16. júní.
Hólmsheiði er móttöku-og gæsluvarðhaldsfangelsi sem var formlega opnað í júní í fyrra. Í fangelsinu er rými fyrir 56 fanga sem sæta gæsluvarðhaldi og einangrun en áður voru gæsluvarðhaldsfangar vistaðir á Litla-Hrauni.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglan fundi nú um næstu skref í málinu. Það liggur því ekki fyrir hvort að einhverjir sakborninganna verði yfirheyrðir í dag.
Eins og á sást á myndum í gær þegar hin handteknu voru leidd fyrir dómara í héraðsdómi voru tveir menn í einhvers konar göllum en ekki borgarlegum klæðnaði.
Grímur segir að lögreglan hafi lagt hald á fatnað hluta sakborninga og rannsaki hann nú með tilliti til þess hvort þar geti leynst einhver sönnunargögn. Hann vill ekki svara því til hvort lögreglan hafi fundið lífsýni í fötunum.

