Göngugarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir tókst að láta langþráðan draum sinn rætast í nótt þegar hún komst á topp Everest, hæsta fjalls heims. Það gerði hún klukkan 3:15 í nótt að íslenskum tíma og er hún sjöundi Íslendingurinn til að ná þessum áfanga og fyrst kvenna. Hún gat þó hins vegar ekki verið lengi á toppi veraldar vegna vinda og mikillar umferðar.
Tómasz Þór Veruson, kærasti Vilborgar, ræddi við hana þegar hún komst á toppinn í nótt. Ekkert símasamband er á fjallinu, en hann hefur talað við hana í gegnum talstöðvar. Rætt var við hann í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.
„Hljóðið í henni var mjög gott. Það var gífurlega mikil gleði í gangi og hún var mjög ánægð að hafa loksins náð þessu. Þetta er búið að vera gífurlega langt ferðalag og er búið að taka þó nokkur ár. Þetta er búið að vera draumur hennar í mjög langan tíma, sem að loksins náðist í nótt,“ segir Tomasz.
Hann segir Vilborgu og sjerpann Tenji hafa verið um tíu til fimmtán mínútur á toppi Everest. Miklir vindar sem og umferð settu strik í reikninginn.
„Annars var mikil umferð á fjallinu. Maður verður að gefa öðrum séns líka að smella selfie.“
Tómasz, sem segist lítið sem ekkret hafa sofið undanfarið, segir fjölskyldu Vilborgar vera í skýjunum með að hún hafi náð þessum árangri.
Þá segir hann að það hafi verið erfitt að vera ekki með henni í þessu.
„Maður er samt einhvern veginn inn í þessu allan tíman með henni og þetta er búið að ganga vel. Betur en maður hefði búist við.“
Reyndi fyrst 2014
Vilborg Arna reyndi fyrst við Everest vorið 2014. Hún var í grunnbúðunum þegar snjóflóð féll og sextán létust. Vorið 2015 fór hún aftur en þegar hún var rétt komin í grunnbúðirnar varð gríðarmikill jarðskjálfti. Þrjátíu manns í grunnbúðunum lét lífið og þúsundir á landsvísu.
Hún var í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðustu viku þar sem hún sagði Everest vera ástríðu sína og hún hefði hugsað um þetta fjall í fimmtán ár.
Everest er 8.848 metra hátt.
