Skýrsla ráðherra var til umfjöllunar í þinginu í gær. Í henni kemur fram að mikilvægast sé að tryggja viðskipti Íslendinga og Breta eftir brotthvarf þeirra síðarnefndu úr ESB. „Nú, þegar umræðan hér á landi um viðskiptastefnuna er að mestu laus úr viðjum kröfunnar um aðild að Evrópusambandinu, er full þörf á að styrkja starf okkar innan EFTA og EES,“ segir í skýrslunni.

Formaður utanríkismálanefndar þingsins, Jóna Sólveig Elínardóttir, var ein þeirra sem gagnrýndu ráðherrann. Sagði hún það mikilvægt að styrkja samskipti Íslands og ESB.
„Við erum ósammála um Evrópusambandið og það hefur svo sem legið fyrir frá upphafi að Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn séu ekki sammála um þá hluti. Við munum halda áfram að ræða það hvernig við getum bætt getu okkar í því að hafa áhrif á löggjöf innan ESB og koma fyrr að málum,“ segir Jóna Sólveig.