Heilbrigðisráðherra neitaði fjölmiðlum um svör í gær vegna harðorðs bréfs Landlæknis þar sem hann gagnrýnir meðal annars afstöðu ráðuneytisins til starfemi Klíníkunnar, sem er á skjön við afstöðu Landlæknis.
Í bréfi Landlæknis segir að túlkun ráðuneytisins á heilbrigðislögunum geri það að verkum að einkarekstur og einkavæðing á sviði sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu geti haldið áfram að vaxa hér á landi, meðal annars í krafti þess að sjúklingar greiði aðgerðir dýru verði úr eigin vasa.
Heilbrigðisráðherra hefur nokkuð afdráttarlaust lýst því yfir að ekki standi til að gera samning á milli Klíníkurinnar og Sjúkratrygginga Íslands, sem niðurgreiðir aðgerðir fólks sem þangað leitar.

Framkvæmdastjóri Klíníkurinnar, Hjálmar Þorsteinsson, segir það pólitíska ákvörðun ráðherrans að sjúklingar búi við það kerfi. Hann skilur bréf Landlæknis ekki öðru vísi en svo að embættið vilji takmarka rekstrarleyfi Klíníkurinnar, þannig að henni væri óheimilt að gera þær aðgerðir sem þar eru gerðar í dag.
„En við erum á Evrópska efnahagssvæðinu. Ef þú uppfyllir fagleg skilyrði þá er ekki hægt að hefta starfsemi heilbrigðisfyrirtækis á þann hátt sem landlæknir ýjar að.“