Innlent

Páskaveðrið: Útlit fyrir ágætis útivistarveður um mest allt land

Birgir Olgeirsson skrifar
Svona verður veðrið á hádegi á páskadag, þegar páskaeggjaátið nær vafalaust hámarki, ef spá Veðurstofu Íslands gengur eftir.
Svona verður veðrið á hádegi á páskadag, þegar páskaeggjaátið nær vafalaust hámarki, ef spá Veðurstofu Íslands gengur eftir. Veðurstofa Íslands
Veðurstofa Íslands segir flest benda til þess að útivistarveður verði ágætt um páskana um mest allt land.

Norðanáttir verða þrálátar í vikunni með tilheyrandi kulda en næstu dagar munu einkennast af björtu veðri með næturfrosti um landið sunnanvert og sennilega mun snjóa eitthvað á skírdag.

Fyrir norðan mun snjóa reglulega og hitastigið verður að mestu á bláa rófinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun:

Léttskýjað að mestu syðra, hiti 2 til 7 stig sunnanlands yfir daginn, annars í kringum frostmark.

Á fimmtudag (skírdagur):

Austlæg átt 5-13 m/s. Snjókoma með köflum og vægt frost, en slydda syðst og hiti rétt yfir frostmarki. Úrkomulaust að kalla norðvestan til á landinu.

Á föstudag (föstudagurinn langi):

Norðan 8-13 m/s. Snjókoma á Austurlandi, dálítil él norðanlands, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-8. Víða bjart veður, en dálítil él með norðurströndinni og einnig líkur á éljum syðst á landinu. Frost 0 til 5 stig, en hiti yfir frostmarki sunnanlands yfir daginn.

Á sunnudag (páskadagur):

Norðaustan 5-10 m/s. Léttskýjað sunnan- og vestanlands, en él norðaustantil á landinu. Áfram fremur kalt í veðri.

Á mánudag (annar í páskum):

Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með slyddu og síðar rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu. Hlýnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×