Innlent

Segir Brynjar vanhæfan eftir störf sín fyrir Bjarka Diego

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir vísir/daníel
Það er óheppilegt að formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis leiði vinnu við úrvinnslu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu Búnaðarbankans. Þetta er mat Svandísar Svavarsdóttur, fulltrúa VG í nefndinni.

„Ég tel að það færi betur á því að einhver annar leiddi nákvæmlega þessa vinnu,“ segir Svandís. Ástæðan er sú að Brynjar Níelsson var verjandi Bjarka Diego þegar sakamál tengd Kaupþingi voru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Það var áður en Brynjar var kjörinn þingmaður árið 2013. Bjarki var lögfræðingur hjá Kaupþingi og samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom hann að gerð baksamninga þess efnis að Kaupþing keypti aftur hluti í Búnaðarbankanum af þýska bankanum Hauck & Aufhäuser.

„Mér finnst það skipta mjög miklu máli að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé þannig að ekki falli skuggi á hennar störf. Það er afar mikilvægt og það hljótum við öll að vera sammála um,“ segir Svandís og bætir við að um þetta mál verði væntanlega fjallaði í nefndinni.

Brynjar Níelsson segist ekkert hafa íhugað framtíð málsins. „Ef nefndin er almennt á því að það sé ómögulegt að ég sé þarna þá fer ég úr nefndinni. Ég ætla ekkert að vera að djöflast ef aðrir nefndarmenn vilja það ekki,“ segir Brynjar.

Samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir Alþingis á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fjalla um skýrsluna og draga af henni ályktanir, sem geta verið leiðbeiningar til þingsins eða framkvæmdarvaldsins um breytta löggjöf eða breytta framkvæmd. „Við förum yfir skýrsluna, metum hvort einhvern lærdóm sé hægt að draga af henni og svo framvegis,“ segir Svandís um það hlutverk nefndarinnar sem fram undan er.


Tengdar fréttir

Krefjast rannsóknar á sölu Landsbankans

Þingmenn, bæði úr stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu, telja mikilvægt að fram fari rannsókn á einkavæðingu Landsbankans. Björgólfur Thor Björgólfsson, sem var stór hluthafi í bankanum, tekur einnig undir þá kröfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×