Innlent

Bjarni Ben kominn með nýjan aðstoðarmann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Páll Ásgeir Guðmundsson verður hægri hönd forsætisráðherra.
Páll Ásgeir Guðmundsson verður hægri hönd forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, hefur ráðið Pál Ásgeir Guðmundsson sem aðstoðarmann sinn. Páll Ásgeir er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og með B.A. próf í sálfræði frá Háskóla Íslands. Þetta kemur fram á vef forsætisráðuneytisins.

Á árunum 1999-2001 starfaði Páll við markaðsmál þar til hann var ráðinn framkvæmdastjóri Telmar á Íslandi en því starfi gegndi hann þar til félagið var sameinað Gallup 2003. Undanfarin 14 ár hefur Páll starfað hjá Gallup en síðustu sjö ár hefur hann gegnt starfi sviðsstjóra markaðs- og viðhorfsrannsókna. 

Páll hefur unnið með mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins auk þess að leiða rannsóknir á viðhorfum landsmanna til ýmissa málefna. Páll Ásgeir er fæddur í Reykjavík 1973, eiginkona Páls er Elsa Nielsen, grafískur hönnuður, og eiga þau þrjú börn.

Svanhildur Hólm Valsdóttir hefur verið aðstoðarmaður Bjarna undanfarin ár og verður það áfram ásamt Páli Ásgeiri. Teitur Björn Einarsson var sömuleiðis aðstoðarmaður Bjarna á síðasta þingi en hann er nú tekinn við þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Aðstoðarmenn ráðherra eru með um 1,2 milljónir króna í mánaðarlaun en vinnutímanum er best lýst með „alltaf, alls staðar“ eins og Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, komst að orði í umfjöllun um aðstoðarmenn ráðherra í Fréttablaðinu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×