Fyrir hálfri öld voru um tuttugu býli í byggð á Melrakkasléttu en nú eru aðeins tvö eftir; það vestasta, Reistarnes á Leirhafnartorfunni, og það austasta, Höfði, sunnan Raufarhafnar. Kaflaskil urðu fyrir tveimur árum þegar flutt var burt af höfuðbólinu Leirhöfn en þá var enginn sveitabær eftir í ábúð á milli Leirhafnar og Raufarhafnar.
Níels Árni Lund, frá Miðtúni á Melrakkasléttu, gaf nýlega út sögu Sléttunnar í þremur bindum. Þegar hann var að alast upp á Leirhafnartorfunni bjuggu þar milli fimmtíu og sextíu manns á níu heimilum.

Reisulegt timburhús á Grjótnesi frá árinu 1906 ber vott um ríkidæmi fyrr á tíð en Baldur Hólmsteinsson, sem nytjar þar æðardún á sumrin, telur ekki útilokað að Sléttan byggist á ný.
„Það er nægt land til þess að rækta, ef menn vilja fara að búa með skepnur eða gera eitthvað slíkt,“ segir Baldur.
Sigurður Mar Óskarsson, hlunnindabóndi á Ásmundarstöðum, telur að þá þyrfti nýjar atvinnugreinar eins og ferðaþjónustu.
„En þetta fer ekki í byggð eins og var, ekki með hefðbundin landbúnaðarnot,“ segir Sigurður.

„Okkur finnst voðalega gaman að minnast þessara tíma þegar við vorum að alast upp,“ segir Þorbjörg.
Og dæmi eru um að brottfluttir Sléttungar reisi sér ný hús, eins og Vera Sigurðardóttir frá Oddsstöðum, sem vonast til þess með manni sínum, Óla Björnssyni, að geta dvalið þar í minnst fimm til sex mánuði á ári.

Nánar var fjallað um mannlíf á Melrakkasléttu í þættinum „Um land allt“ en hér má sjá kynningarstiklu þáttarins.