Sjómenn höfnuðu gagntilboði sem samninganefnd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi lagði fram nú í kvöld. Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir sjómenn hafa gert sitt lokatilboð í gær og það standi.
„Við teljum að boltinn sé hinu megin. Við erum búnir að gera það sem við getum gert. Það verður ekkert meira frá okkar hendi,“ segir Valmundur í samtali við Vísi.
Sjómenn lögðu fram tilboð í kjaradeilunni í gær og Valmundur sagði þá að ekki væri mögulegt fyrir sjómenn að slá meira af. Nú seinni partinn í dag lagði SFS fram gagntilboð sem var fljótt hafnað.
Valmundur segir að mikill munur hafi verið á tilboðunum tveimur.
Í dag eru tveir mánuðir síðan sjómenn fóru í verkfall. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar.
