Að sögn Ingu Bjarkar Bjarnadóttur, sem öðrum fremur stóð að skipulagningu viðburðarins, var blásið til samverustundarinnar með skömmum fyrirvara. Mikill vilji hafi verið til að gera eitthvað til minningar um Birnu og þótti henni og öðrum við hæfi að safnast saman á þessu svæði.
Sjá einnig: Mikilvægt að foreldrar ræði við börn sín um Birnu
Inga segir Unga jafnaðarmenn hittast árlega í lundinum til að minnast þeirra sem létust í Útey árið 2011 og nú, rétt eins og þá, eru henni orð Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra Noregs, í huga þegar hún minntist hinnar tvítugu Birnu.
„Látum ástina vera hatrinu yfirsterkari,“ segir Inga í anda Stoltenbergs. „Mér þótti við hæfi að standa saman og sýna að okkur er ekki sama.“
Fyrr í kvöld var greint frá því að Grænlendingar hefðu safnast víðsvegar saman og kveikt á kertum til minningar um Birnu. „Við tengjumst Íslendingum nánum böndum og mér þykir mikilvægt að sýna samúð okkar með þessum hætti.“
