Innlent

Unnur Brá kosin forseti Alþingis

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Unnur Brá Konráðsdóttir er nýr forseti Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir er nýr forseti Alþingis. Vísir/Vilhelm
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var nú rétt í þessu kosin forseti Alþingis. Alls greiddu 54 þingmenn atkvæði með því að hún yrði forseti þingsins en fimm greiddu ekki atkvæði. Er það í samræmi við samkomulag stjórnarflokkanna þar um að Unnur Brá sé forseti þingsins en hún tekur við embættinu af Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni Vinstri grænna.

Eftir að Unnur var kjörin steig hún í pontu og þakkaði það traust sem þingheimur sýnir henni með því að kjósa hana sem forseta. Þá minntist hún á hversu ánægjulegt það væri að nú væri hlutfall kvenna á þingi hærra en nokkru sinni fyrr. Unnur Brá kvaðst jafnframt hlakka til samstarfsins við alla þingmenn, jafnt stjórn og stjórnarandstöðu.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna er 1. varaforseti þingsins, Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar 2. varaforseti, Jón Þór Ólafsson, Pírötum, 3. forseti, Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar, 4. varaforseti, Þórunn Egilsdóttir, Framsóknarflokki, 5. varaforseti, og Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, 6. varaforseti. Þá er Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd. 

Á þingfundi sem nú fer fram verður jafnframt kosið í fastanefndir þingsins en ekki hefur náðst samkomulag á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þá kosningu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×