Handbolti

Langþráður sigur hjá Haukum | Jafnt hjá Fylki og Gróttu

Ramune Pekarskyte og félagar fá verðugt verkefni í sextán liða úrslitunum.
Ramune Pekarskyte og félagar fá verðugt verkefni í sextán liða úrslitunum. Vísir/Stefán
Haukakonur unnu nauman sigur á ÍBV á heimavelli í Olís-deild kvenna í dag 28-25 en þetta var fyrsti sigur Hauka í síðustu fimm leikjum og komust þær upp að hlið Vals í 3. sætið með sigrinum.

Haukakonur höfðu misst flugið í undanförnum leikjum og misst af toppliðunum en tap í dag hefði þýtt að liðið væri komið í neðri hluta deildarinnar.

Haukar leiddu 12-10 í hálfleik og unnu að lokum þriggja marka sigur þrátt fyrir að hafa verið þrjár brottvísanir á síðustu tíu mínútum leiksins.

Ramune Petraskyte var markahæst í liði Hauka með 9 mörk en Sigrún Jóhannsdóttir bætti við fimm mörkum. Í liði Eyjakvenna var Greta Kavaliauskatté atkvæðamest með átta mörk en hornamaðurinn Karólína Bæhrenz Lárudóttir kom næst með sjö mörk.

Í seinni leik dagsins mættust neðstu liðin tvö, Fylkir og Grótta í Fylkishöllinni og náðu Seltirningar að taka stig eftir að hafa lent þremur mörkum undir í fyrri hálfleik.

Fylkiskonur gátu með sigri í dag saxað aðeins á næstu lið og leiddu Árbæingar 13-10 í hálfleik en stórleikur Lovísu Thompson hélt Gróttu inn í leiknum. Tókst Seltirningum að landa stigi en með því fara Gróttukonur upp í 6. sæti, upp fyrir Selfoss.

Lovísa bar sóknarleik Gróttu lengi á herðum sér með ellefu mörk en Þórey Anna Ásgeirsdóttir var með sjö mörk. Voru þær því með 18/24 marka liðsins(66,6%).

Í liði Fylkis var Thea Imani Sturludóttir markahæst með átta mörk en Christine Rishaug bætti við sex mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×