Um 120 björgunarsveitarmenn eru nú staddir í Heiðmörk vegna leitar að Birnu Brjánsdóttur. Leitað er á svokallaðri flóttmannaleið í nágrenni hennar en sú leið afmarkast við Vífilsstaði og Kaldárselsveg.
Tæknivinna lögreglu varð til þess að ákveðið var að leita á þessu svæði en sendar sem náðu að nema merki frá síma Birnu aðfaranótt laugardags voru stefnugreindir og var því ákveðið að leita á þessu svæði í kjölfarið.
Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að björgunarsveitarmenn muni ekki hætta leit fyrr en þeir eru búnir að leita á öllu svæðinu. Því var skipt upp í nokkur leitarsvæði og gæti leit þess vegna staðið yfir til miðnættis.
Engir sporhundar eru notaðir við leitina og þá er ekki notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar. Gæslan bauð lögreglunni aðstoð þyrlu í tengslum við leitina í dag en þegar áhöfn hennar var að gera þyrluna klára til brottfarar barst beiðni frá Neyðarlínu um aðstoð vegna alvarlegs umferðarslyss í Öræfum. Af þeim sökum gat þyrlan ekki tekið þátt í leitinni eins og til stóð.
Þorsteinn segir að næstu skref verði ákveðin með lögreglu á fundi í fyrramálið.
Birnu hefur verið saknað síðan á aðfaranótt laugardags. Seinast er vitað um ferðir hennar í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún sést á eftirlitsmyndavélum ganga ein síns liðs austur Austurstræti, Bankastræti og Laugaveg. Birna hverfur svo úr myndavélunum við Laugaveg 31.
Leitin að Birnu: 120 björgunarsveitarmenn leita á flóttmannaleið

Tengdar fréttir

Móðir Birnu: „Það er svolítið skýrt að hún er í hættu“
Hafði nýverið skráð sig á Tinder.

Lögreglan birtir myndband af Birnu í miðbæ Reykjavíkur
Lögreglan hefur nú birt myndband af Birnu Brjánsdóttur þar sem hún sést á ferð um í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags.

Vinkonur Birnu: Yndisleg vinkona og hefur ekki einu sinni reykt gras
María Bjarnadóttir og Matthildur Soffía Jónsdóttir segja að Birna Brjánsdóttir hafi aldrei verið í neinu rugli og hafi verið einstök vinkona. Önnur þeirra var með henni nóttina sem hún hvarf.