Körfubolti

Tyson-Thomas fór hamförum í sigri Njarðvíkur í Suðurnesjaslagnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Carmen Tyson-Thomas fór hamförum í stórsigri Njarðvíkur á Grindavík, 81-61, í leik liðanna í Domino´s-deild kvenna í körfubolta í kvöld.

Þessi magnaði leikmaður skoraði 44 stig eða ríflega helming stiga síns liðs. Hún skoraði meira en restin af samherjum sínum til samans sem hjálpuðu til með 37 stigum. Auk þess að skora 44 stig tók hún 19 fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal sjö boltum af Grindavíkurliðinu.

María Ben Erlingsdóttir var stigahæst í liði Grindavíkur með 22 stig og Ingunn Embla Kristínardóttir skoraði 17 stig og tók átta fráköst.

Njarðvík er búið að vinna tvo af þremur leikjum liðanna á tímabilinu en Grindavík vann þann síðasta í desember, 85-59.

Njarðvíkurkonur komust aftur á sigurbraut með sigrinum sem var mikilvægur fyrir liðið en áður en kom að leiknum í kvöld var það aðeins búið að vinna einn af síðustu fimm leikjum sínum.

Njarðvík komst með sigrinum upp fyrir Val í fimmta sæti deildarinnar en liðið er með fjórtán stig eftir 16 leiki. Grindavík er sem fyrr á botni deildarinnar með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×