Fótbolti

Matthäus: Verður erfitt fyrir Müller að komast í byrjunarliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Müller hefur aðeins skorað eitt mark í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Müller hefur aðeins skorað eitt mark í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. vísir/getty
Það verður erfitt fyrir Thomas Müller að komast í byrjunarlið Bayern München á seinni hluta tímabilsins. Þetta segir Lothar Matthäus, fyrrverandi fyrirliði þýska landsliðsins.

Müller byrjaði 10 af 16 leikjum Bayern í þýsku úrvalsdeildinni fyrir áramót og skoraði aðeins eitt mark.

Í pistli sínum í Sport Bild segir Matthäus að það verði enginn hægðarleikur fyrir Müller að vinna sér sæti í byrjunarliði Bayern.

Matthäus er ófeiminn að segja sína skoðun.vísir/getty
„Það verður ekkert auðveldara fyrir Thomas Müller að komast í byrjunarlið Bayern á seinni hluta tímabilsins,“ skrifaði Matthäus sem lék með Bayern á árunum 1984-88 og svo aftur frá 1992 til 2000.

„Það er engin alvöru staða fyrir hann í leikkerfi Carlos Ancelotti. Arjen Robben er sterkari á hægri kantinum og það er sóknarsinnaður miðjumaður sem spilar fyrir aftan Robert Lewandowski.“

Matthäus segir að Spánverjinn Thiago Alcantara sé framar í goggunarröðinni en Müller.

„Ég sé Thiago fyrir mér í þessari stöðu. Hann var góður fyrri hluta tímabilsins og er fjölhæfari en Müller,“ skrifaði Matthäus og bætti því við að Müller fengi einnig harða samkeppni frá portúgalska ungstirninu Renato Sanches.

Bayern er á toppnum í þýsku deildinni með 39 stig, þremur stigum á undan Red Bull Leipzig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×