Körfubolti

Vinirnir mætast í kvöld og skjóta vel hvor á annan í ruslatali fyrir leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson og Ragnar Nathanaelsson.
Ægir Þór Steinarsson og Ragnar Nathanaelsson. Vísir/Andri Marinó og Stefán
Íslendingaslagur verður í spænska körfuboltanum í kvöld þegar vinirnir Ægir Þór Steinarsson og Ragnar Nathanaelsson mætast með liðum sínum í spænsku b-deildinni.

Ægir Þór er leikstjórnandi hjá liði Burgos en Ragnar miðherji hjá liði Cáceres. Þeir hafa spilað saman bæði með A-landsliðinu sem og í yngri landsliðum.

Burgos-liðinu hefur gengið betur í vetur en liðið er í 4. sætinu með tíu sigra en lið Cáceres er í 11. sæti með sjö sigra.

Karfan.is hafði samband við íslensku strákana og þar voru vinirnir alveg til í að skjóta vel á hvorn annan fyrir leik þeirra í kvöld. Ruslatalið þeirra var af skrautlegri gerðinni en örugglega allt í gríni.

„Eitt veit ég og það er að þeir klúðruðu nokkuð hressilega sinni „scout“ vinnu á Nat-vélinni. Annars er svo kalt hérna uppfrá að ég get ekki beðið eftir að komast heim með sigurinn á bakinu,“ segir Ragnar í viðtalinu við karfan.is.

Hann bendir einnig réttilega á því að hans lið hafi spilað í ACB-deildinni en ekki lið Ægis.

Ægir svaraði þessu fullum hálsi. „Þetta eru svo sem engin geimvísindi ég verð þarna niðri á blokkinni að pósta Ragnar, eitt „pump fake“ og Raggi er farinn. Þetta eru auðveld tvö stig allt kvöldið. Raggi er vissulega skráður 214 cm á hæðina en fæstir vita að drengurinn rétt skríður í tvo metrana,“ segir Ægir í viðtalinu við karfan.is. Hann bætti síðan við: „Sólstrandargæjarnir í Cáceres munu frjósa hérna fyrir norðan.“

Ragnar lofar aftur á móti að troða yfir Ægi í leiknum sem verður að koma í ljós hvort takist hjá þeim. Það er hægt að finna allt viðtalið við þá og sprellið með því að smella hér.

Ragnar fær vonandi að spila meira í kvöld en í fyrri leikjum liðsins í vetur en íslenski miðherjinn er með 1,9 stig og 1,6 fráköst að meðaltali á 7,1 mínútu í leik.

Ægir er með 5,1 stig og 3,9 stoðsendingar að meðaltali á 20,5 mínútum með liði Cáceres.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×