Körfubolti

Enn einn stórleikurinn hjá Martin sem lagði upp sigurkörfu Charleville

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson er að spila frábærlega í Frakklandi.
Martin Hermannsson er að spila frábærlega í Frakklandi. vísir/ernir
Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, heldur áfram að leggja frönsku B-deildina að fótum sér en hann átti enn einn stórleikinn í kvöld þegar lið hans Charleville-Mézieres vann glæsilegan endurkomusigur.

Charleville-Mézieres er í öðru sæti deildarinnar og hefur verið á miklum skriði að undanförnu. Liðið er nú búið að vinna fimm leiki í röð eftir sigur á Roanne í kvöld, 76-74, og er í öðru sæti deildarinnar með níu sigra og tvö töp.

Sigurinn í kvöld var heldur betur flottur því þegar ein mínúta og 45 sekúndur voru eftir komust heimamenn í Roanne sex stigum yfir, 74-68. Gestirnir í Charleville jöfnuðu metin í 74-74 en þá átti Roanne sókn.

Þegar rétt ríflega tíu sekúndur voru eftir unnu gestirnir boltann í vörninni og voru menn fljótir að gefa hann á Martin. Íslenski landsliðsmaðurinn bar boltann fram völlinn nokkra metra en fann svo liðsfélaga sinn á hárréttum tíma og sá hinn sami átti ekki í vandræðum með að skora sigurkörfuna þegar sjö sekúndur voru eftir, 76-74.

Martin var að vanda stigahæstur í sínu liði. Hann skoraði 17 stig, tók tók fimm fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Hann hitti úr 50 prósent skota sina í teignum og þremur af fjórum á vítalínunni.

Haukur Helgi Pálsson og félagar hans í Rouen eru áfram rótfastir við botn B-deildarinnar í Frakklandi en liðið tapaði þriðja leiknum í röð í kvöld þegar það lá í valnum á heimavelli gegn Poiters, 75-71.

Haukur Helgi átti stórleik og var stigahæstur á vellinum með 23 stig auk þess sem hann tók fimm fráköst og gaf eina stoðsendingur. Hann hitti úr þremur af átta skotum í teignum, þremur af fjórum fyrir utan þriggja stiga línuna og öllum átta vítaskotunum.

Því miður dugði þetta ekki til sigurs fyrir Roen sem er aðeins með tvo sigra í fyrstu ellefu umferðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×