Kári Aðalsteinsson, garðyrkjustjóri hjá kirkjugörðum Reykjavíkurprófastdæmis, segir að allt hafi gengið mjög vel í görðunum í morgun en venju samkvæmt hefur fólk streymt í kirkjugarðana á aðfangadegi til að vitja leiða látinna ástvina.
Fyrstu gestirnir voru komnir í garðana um klukkan sjö í morgun en þegar Vísir heyrði í Kára núna rétt fyrir hálfþrjú var traffíkin orðin meiri úr görðunum en í þá.
Veður hefur verið afar gott á höfuðborgarsvæðinu það sem af er aðfangadegi. Kári segist ekki merkja það að fleiri hafi komið í kirkjugarðana í ár en vanalega en vissulega gangi allt betur, bæði umferðin og annað, þegar veðrið er gott.
Vísir greindi frá því í vikunni að Höfuðborgarstofa hefði bent ferðamönnum á að kíkja í kirkjugarðana yfir jólin, en aðspurður kveðst Kári ekki hafa orðið var við marga ferðamenn í görðunum í morgun.
Hádegisfrétt Stöðvar 2 um kirkjugarðana má sjá í spilaranum hér að ofan.
