Körfubolti

Íslensku strákarnir mætast í franska körfuboltanum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson og Haukur Helgi Pálsson eru á auglýsingunni fyrir leikinn.
Martin Hermannsson og Haukur Helgi Pálsson eru á auglýsingunni fyrir leikinn. Mynd/Rouen Métropole Basket
Landsliðsmennirnir Martin Hermannsson og Haukur Helgi Pálsson eru í stórum hlutverkum hjá sínum liðum í frönsku b-deildinni í körfubolta og í kvöld er komið að stóru stundinni.

Martin spilar með Charleville-Mézières en Haukur Helgi er hjá Rouen. Lið Martins og Hauks Helga mætast í kvöld í tíundu umferð deildarinnar og fer leikurinn fram á heimavelli Martins og félaga.

Martin Hermannsson hefur verið frábær í allan vetur en hann er með 18,1 stig og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í leik og hefur hitt úr 52 prósent skota sinna og 88 prósent vítanna.

Haukur Helgi Pálsson er kominn til baka eftir meiðsli en hann er með 11,8 stig, 3,8 stoðsendingar og 3,5 fráköst að meðaltali í leik.

Haukur var með 17,5 stig og 5,5 fráköst í síðustu tveimur leikjum og sýndi þá að hann er búinn að ná sér af meiðslunum sem voru að trufla hann í margar vikur þar á undan.

Leikur liðanna fer fram Caisse d’Epargne Arena í Charleville-Mézières og hefst klukkan 19.00 að íslenskum tíma. Það verður hægt að fylgjast með leiknum með því að smella hér.

Martin Hermannsson og Haukur Helgi Pálsson eru tveir af bestu körfuboltamönnum Íslands og eiga báðir mikið í því að Ísland er á leiðinni á Eurobasket í annað skiptið á tveimur árum. Þeir spila hlið við hlið með landsliðinu en í kvöld fá þeir tækifæri til að taka á hvorum öðrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×