Körfubolti

Martin leikmaður vikunnar í annað sinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson er á meðal bestu leikmanna deildarinnar.
Martin Hermannsson er á meðal bestu leikmanna deildarinnar. vísir/stefán
Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, var valinn leikmaður vikunnar í frönsku B-deildinni fyrir magnaða frammistöðu sína í sigri Charleville-Mézieres á Rouen í Íslendingaslag í tíundu umferð deildarinnar.

Martin var óstöðvandi, en hann skoraði 26 stig, tók fimm fráköst og gaf níu stoðsendingar. Þá hitti hann úr 60 prósent skota sinna í teignum. Þetta er í annað sinn á tímabilinu sem Martin hlýtur þennan heiður.

Vesturbæingurinn er búinn að vera alveg frábær í frumraun sinni í atvinnumennsku en hann gekk í raðir franska liðsins úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum í sumar.

Hann er næst stigahæstur í deildinni með 18,9 stig að meðaltali í leik og í sjötta sæti yfir flestar stoðsendingar í leik í deildinni eða sex talsins. Þá er hann að hitta úr 59 prósent skota sinna.

Með Martin í svona stuði er Charleville-liðið í flottum málum í öðru sæti deildarinnar en það er búið að vinna átta leiki og tapa aðeins tveimur.

Árið er búið að vera gott hjá Martin. Hann spilaði vel með LIU Brooklyn-háskólanum í byrjun árs, var svo besti maður íslenska landsliðsins í undankeppni EM 2017 og var í síðustu viku útnefndur körfuboltakarl ársins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×