Handbolti

Vignir allt í öllu í lokin í endurkomusigri Tvis Holstebro á móti toppliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vignir Svavarsson var markahæstur.
Vignir Svavarsson var markahæstur. Vísir/Getty
Vignir Svavarsson átti mjög flottan leik þegar Tvis Holstebro vann eins marks útisigur á toppliði dönsku úrvalsdeildarinnar AaB Håndbold.

Þessi Íslendingaslagur var bæði æsispennandi og dramatískur en Tvis Holstebro snéri leiknum við á lokamínútunum og vann 26-25.

Vignir Svavarsson var markahæstur í liði Tvis Holstebro með sex mörk. Hann skoraði þrjú mörk á lokakaflanum þegar Tvis Holstebro vann upp þriggja marka forskot heimamanna.

AaB Håndbold var 24-21 yfir en skoraði þá ekki í tæpar fimm mínútur og á meðan tókst Vigni og félögum að jafna metin.

Aron Kristjánsson, þjálfari AaB, tók leikhlé í stöðunni 25-25 þegar mínúta var eftir en norski landsliðsmaðurinn Sander Sagosen lét verja hjá sér.

Tvis Holstebro fékk síðustu sóknina og eftir leikhlé tuttugu sekúndum fyrir leikslok þá skoraði Martin Lysdahl Hansen sigurmarkið fimm sekúndum fyrir leikslok.

AaB Håndbold var á toppnum fyrir leikinn en hefði náð tveggja stiga forskoti með sigri. Þessi sigur Tvis Holstebro þýðir að liðið er nú í fjórða sæti og aðeins fjórum stigum frá toppnum.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði tvö mörk fyrir lið AaB Håndbold en Arnór Atlason lék ekki vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×