Formaður félags grunnskólakennara segir viðræður í kjaradeilu félagsins mjakast í rétta átt en samninganefndir komu saman til fundar í morgun.
Fundur samninganefndar Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga hófst hjá ríkissáttasemjara klukkan níu í morgun. Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir viðræðurnar hafa þokast í rétta átt undanfarna daga.
„Það er ennþá svolítið í land en þetta mjakast í rétta átt. Það er farið að styttast í hinn endan hvað varðar tímann á þessu.“
Aðspurður um hvað hann gæfi viðræðunum langan tíma sagði hann að í upphafi hefði verið miðað við tvær til þrjár vikur.
„Ég sagði að þetta gæti tekið tvær til þrjár vikur og við erum svo sem enn að horfa á þann tíma. Þetta verður því að skýrast núna þegar líður á vikuna í seinasta lagi.“
Verði ekki komin niðurstaða í byrjun desember þurfi að endurmeta stöðuna
„Þá þarf að stokka spilin og sjá hvaða möguleikar er í stöðunni. Við skoðum bara alla möguleika en það er ekkert sjálfkrafa sem gerir það að verkum að menn fari beint í verkfall. Það er lengri aðdragandi að því ef að mál þróast þannig“. Segir Ólafur Loftsson.
Ólafur segir viðræður í kjaradeilu Félags grunnskólakennara mjakast í rétta átt
Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
