Erlent

Pútín og Trump ræddust við

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna. Nordicphotos/AFP
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, sammæltust um það í dag að bæta þyrfti samskipti ríkjanna tveggja. Leiðtogarnir ræddust við símleiðis í dag, að sögn rússneskra stjórnvalda.

Pútín og Trump sögðust báðir sammála því að samskipti Bandaríkjanna og Rússlands væru mjög ófullnægjandi, og ætla að vinna að frekara samstarfi, meðal annars með tilliti til þess að á næsta ári eru liðin 210 ár frá því að stjórnmálasamband hófst á milli þjóðanna.

Þá ræddu þeir jafnframt stríðið í Sýrlandi, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá rússneskum stjórnvöldum. Ákváðu þeir að halda samskiptum sínum áfram í gegnum síma, og að hittast í náinni framtíð.

Pútín og Trump hafa lofað hvorn annan í hástert að undanförnu; Pútín hefur kallað Trump framúrskarandi og hæfileikaríkan mann, og þá hefur Trump ítrekað lýst aðdáun sinni á Pútín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×