Handbolti

Hannover upp í 5. sætið eftir óvæntan stórsigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar og félagar eru á góðri siglingu.
Rúnar og félagar eru á góðri siglingu. vísir/afp
Hannover-Burgdorf gerði sér lítið fyrir og valtaði yfir Magdeburg á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur 22-37, Hannover í vil.

Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í 6.-7. sæti deildarinnar og því kemur þessi stóri sigur á óvart.

Rúnar Kárason skoraði eitt mark fyrir Hannover sem var níu mörkum yfir í hálfleik, 8-17. Í seinni hálfleik dró enn í sundur með liðunum og á endanum munaði 15 mörkum á þeim, 22-37.

Þýski landsliðsmaðurinn Kai Häfner var markahæstur hjá Hannover með átta mörk. Liðið hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og er komið upp í 5. sæti deildarinnar.

Það var álíka lítil spenna í leik Flensburg og Balingen-Weilstetten.

Lærisveinum Rúnars Sigtryggssonar í Balingen hefur gengið ágætlega að undanförnu en í kvöld mættu þeir ofjörlum sínum. Flensburg var mun sterkari aðilinn og vann með helmingsmun, 36-18.

Með sigrinum fór Flensburg upp í 1. sæti deildarinnar en Kiel getur endurheimt toppsætið fái liðið stig gegn 2000 Coburg í síðasta leik kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×