Innlent

Formaður Alþýðufylkingarinnar ánægður með 0,2 prósent atkvæða

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, á kjörstað í morgun.
Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, á kjörstað í morgun. Vísir/Þórhildur
Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, segist ekki geta verið annað en sáttur með það fylgi sem flokkurinn hefur nú fengið, eða 0,2 prósent atkvæða. Fyrst og fremst sé hann ánægður með þá athygli sem flokkurinn hefur fengið að undanförnu, enda hafi eitt af markmiðunum verið að koma áherslumálunum á framfæri.

„Ég held að fylgið sé hærra en síðast. Við höfum náð verulegum árangri í þessari kosningabaráttu og ég held að það séu margar praktískar ástæður fyrir því að fylgið skili sér ekki í samræmi við það. Ég veit líka að það var talsvert af fólki sem hefði helst viljað kjósa okkur en gerði það ekki af einhverjum ástæðum,“ segir Þorvaldur í samtali við Vísi.

Þorvaldur segist hafa fengið afar góð viðbrögð frá fjölda fólks síðustu vikur. „Við höfum fengið slatta af nýjum félögum og í raun og veru lítum við á þetta sem áframhaldandi lyftistöng. Við hugsum ekki bara um einar kosningar og segjum bara búið spil. Við munum halda áfram strax á morgun,“ segir hann.

„Markmið okkar er að breyta samfélaginu. Eitt af því sem hefur nú þegar gerst er að þeim fjölgar gríðarlega sem þekkja okkar sjónarmið. Okkar stefna er í raun og veru sú eina sem getur leitt til samfélagsbreytinga sem meirihluti þjóðarinnar vill.“

Þorvaldur segist ætla að halda ótrauður áfram. Næst muni flokkurinn bjóða sig fram í sveitarstjórnarkosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×