Innlent

„Þetta er alltaf frábært fyrir okkur“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Þetta er alltaf frábært fyrir okkur. Þetta er alltaf frábær árangur, alveg sama hvernig er litið á það,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, fráfarandi þingmaður Pírata, á kosningavöku flokksins á Bryggjunni fyrr í nótt.

Þegar þetta er ritað eru Píratar með 14,1 prósent og níu þingmenn inni. Í síðustu kosningum fengu þeir 5,1 prósent og þrjá menn kjörna. Helgi sagði ekki hægt að lítast illa á niðurstöðuna eins og staðan er í dag.

Spurður hvort hún væri vonbrigði miðað hvað Píratar mældust með mikið fylgi í skoðanakönnunum sagði hann svo ekki vera. Flokkurinn hafði farið afar hratt upp í skoðanakönnunum á sínum tíma og vitað væri að hann gæti farið jafn hratt niður. Hann sagði það vera auðvitað óskandi að fara hærra.

„En þetta er stórsigur, alveg sama hvað og við erum í ótrúlegri lúxusstöðu að geta spurt hvort þetta var stór sigur eða stór stórsigur.“

Helgi mun nú vinna fyrir flokk Pírata og miðla af sinni þingreynslu innan flokksins. Þannig verði hægt að styrkja innviði hans sem Helgi segir ekki hafa verið búna undir þetta stökk í vinsældum á sínum tíma.

Nú sé hægt að byggja brú milli hins almenna kjósanda og þingsins.

Hægt er að heyra lengri útgáfu af viðtalinu í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×