Innlent

Húmanistar: „Vildum ekki hafa sleppt þessu“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Júlíus Valdimarsson, formaður Húmanistaflokksins.
Júlíus Valdimarsson, formaður Húmanistaflokksins. vísir/stefán
 „Við erum með mikilvæg mál og fyrst og fremst vildum við koma þeim á framfæri. Við vildum ekki hafa sleppt þessu,“ segir Júlíus Valdimarsson, formaður Húmanistaflokksins, en flokkurinn mælist með núll prósent atkvæða, og þegar þetta er skrifað hefur flokkurinn fengið alls sextán atkvæði.

„Við erum með mjög róttæk mál en mjög þýðingarmikil og við erum ánægð með það ef okkar framboð hefur komið hreyfingu á það, en þjóðpeningakerfið er bara lykilmál sem snertir okkur öll,“ segir hann. Júlíus segir hins vegar að mögulega sé þetta mál heldur flókið.

„Okkar málefni eru stutt af mjög virtum hagfræðingum. Þau eru ekki einföld þó þau hafi mikla þýðingu. Mögulega er of flókið að tala um vaxtalaust samfélag, svolítið svona eins og að segjast ætla að flytja Esjuna, og þess vegna skautar þetta kannski fram hjá, því vextir eru í huga margra eins og náttúrulögmál.“

Flokkurinn hefur alls boðið fram níu sinnum; fimm sinnum í alþingiskosningum og fjórum sinnum í borgarstjórnarkosningum, en aldrei náð manni inn. Aðspurður hvort flokkurinn muni nú segja þetta gott, segir Júlíus flokkinn langt frá því að vera af baki dottinn, og að líklega muni hann bjóða fram í næstu sveitarstjórnarkosningum. „Eins og ég segi þá eru þetta mikilvæg málefni sem þurfa að ná til fólksins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×