Innlent

Sigmundur Davíð: Stór hluti kjósenda reyndi að forðast þá hættu sem var að birtast með Píratastjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Vísir/Anton brink
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra er ánægður með að fylgi flokksins í Norðausturkjördæmi sé að þokast í rétta átt, en þetta kom fram í viðtali við hann á kosningavöku RÚV. Hann telur jafnvel mögulegt að flokkurinn bæti við sig þriðja manninum en nú eru hann og Þórunn Egilsdóttir inni á þingi.

Fylgi flokksins á landsvísu er þó slakt og sagði Sigmundur aðspurður ekki annað hægt en að taka undir það.

„Það er nú eiginlega ekki hægt annað þegar flokkurinn stefnir í að fá minnsta fylgi sitt í 100 ára sögunni á 100 ára afmælinu. Þetta er öðruvísi en maður hefði viljað sjá það,“ sagði Sigmundur.

Sigmundur sagði eflaust hægt að leita ýmissa skýringa á dræmu gengi flokksins. Spurður hvort að fylgið muni duga flokknum í ríkisstjórn sagði hann:

„Auðvitað metum við þetta bara í fyrramálið þegar tölurnar liggja fyrir. Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er að styrkja mjög sína stöðu á síðustu dögum. Með þeim atburðum sem hafa orðið þá hefur greinilega stór hluti kjósenda reynt að forðast þá hættu sem var að birtast með Píratastjórn. [...] Ég held að við hefðum alveg, ef það hefði verið haldið öðruvísi á málum, getað verið sá valkostur frekar en Sjáflstæðisflokkurinn en þetta er staðan og það styrkir stöðu samstarfsflokksins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×